STÓRA SANDFELL

Ferðaþjónustan að Stóra-Sandfelli er í Skriðdal, 17 km. sunnan við Egilsstaði við þjóðveg nr. eitt, er liggur suður til Hafnar í Hornafirði. Hér er að finna úrvals tjaldstæði og gistingu í frístandandi skálum og sér herbergjum í stærra húsnæði. Einnig eru í boði reiðtúrar í fögru umhverfi þar sem jafnframt er að finna freistandi gönguleiðir.

Sama fjölskyldan hefur rekið ferðaþjónustuna um tuttugu ára skeið og sameinar reynslu og austfirska gestrisni. Skammt er til allra helstu ferðamannastaða Austanlands frá bænum.

Tjaldstæðið er staðsett í skóglendi og þar er góð aðstaða fyrir hendi: Rafmagn, salerni og rennandi vatn, heitt og kalt. Auk þess vaskar og sturtur. Útigrill eru til afnota fyrir gesti og nóg af stólum og borðum.

Gisting er í boði í skálum sem rúma 4-5 einstaklinga. Þeir eru búnir ísskapum, eldunaraðstöðu, borðbúnaði og gasgrilli og eru leigðir út til lengri og skemmri tíma.

Þá er svefnpokapláss fyrir hendi í herbergjum er rúma 2-5 gesti.

Hestaleiga er að Stóra-Sandfelli og er hægt að fara í skipulagðar eins- til fjögurra tíma ferðir um skóga, fjöll og dali. Vinsælir eru reiðtúrar inn í Hjálpleysu sem er djúpur, sagnaríkur og fagur eyðidalur. Einnig er vinsælt að bregða sér á bak í miðnæturtúra að sumarlagi.

Tjaldsvæðið og hestaleigan eru opin frá 1. júní – 15. september.
Gistiaðstaðan er opin frá 15. maí – 1. október.
Vinsamlegast hafið samband vegna verðlista og bókana.

Heim
Gisting
Tjaldsvæði og hestaleigan
Staðsetning – Umhverfi

Stóra Sandfell